Fréttir

Biðlar til fólks að dvelja ekki í Grindavík
Mikil gasmengun er frá eldstöðinni við Sundhnúk. VF/Ísak Finnbogason
Þriðjudagur 26. mars 2024 kl. 16:18

Biðlar til fólks að dvelja ekki í Grindavík

Það er óbreytt mat Úlfars Lúðvíkssonar, lögreglustjóra á Suðurnesjum, að ógn geti stafað af hraunrennsli og gasmengun í Grindavík og inn í Svartsengi við núverandi aðstæður. Hætta er talin á að loftmengun geti ógnað heilsu manna inn á merktu hættusvæði en áfram er aukin hætta vegna gasmengunar, segir í tilkynningu frá lögreglustjóranum

Þá segir að við breytilega vindátt getur vart talist forsvaranlegt að halda úti starfsemi í Bláa Lóninu á meðan eldgos er enn í gangi og á það jafnframt við um aðra starfsemi inn á merktu hættusvæði. Fylgst er vel með loftgæðum á svæðinu m.a. í góðu samstarfi við atvinnurekendur. 

Há gildi af SO(brennisteinsdíoxíð) hafa mælst á svæðinu undanfarið. Þessi mengun er talin mjög óholl og líklegt að flestir gætu fundið fyrir einkennum í öndunarfærum. Mikilvægt er að dvelja innandyra, loka gluggum og slökkva á loftræstingu. Þetta á ekki síst við þar sem vinna fer fram utandyra. Þá þurfa fyrirtæki og stofnanir á suðvesturhorni landsins að huga vel að þróun loftgæða vegna mögulegrar hættu á gasmengun.  

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Úlfar ögreglustjóri biðlar til íbúa Grindavíkur svo og annarra sem eiga hagsmuna að gæta inn á merktu hættusvæði að dvelja þar ekki. Þar geta skapast aðstæður sem geta verið lífshættulegar mönnum. 

Þeir sem eiga erindi inn í Grindavík er bent á að athuga reglulega með loftgæði á svæðinu inn á vefsíðu Umhverfisstofnunar, á slóðinni:  https://loftgaedi.is/   

Bent er á gagnlegar upplýsingar á vefsíðu Landlæknisembættisins, á slóðinni:  https://island.is/eldgos-heilsa  og vefsíðu Vinnueftirlitsins, á slóðinni:  https://vinnueftirlitid.is/